top of page
Search
  • gudmundurkristinsson

Lífsbaráttan skilgreindi ástina

Í minningunni var andlitið á afa eins og meitlað í stein. Það voru ekki mikil svipbrigði í andlitinu þegar hann talaði og í raun voru varirnar það eina sem þá hreyfðist. Fasið hjá honum var fast, ákveðið og stíft eins og var svo algengt hjá karlmönnum á þessum tíma. Það var mikil harka í augnaráðinu og maður upplifði einhvern vegin hans erfiða líf í þessu hörkulega augnaráði, en maður sá þarna líka traust og blíðu í bland við þessa miklu hörku. Augnabrýrnar á afa voru miklir brúskar, mjög ferkantaðir og breiðir. Hann var ekki maður mikilla orða og þegar hann talaði, þá hlustaði fólk og engum datt í hug að taka fram í fyrir honum eða mótmæla því sem hann sagði. Þetta var ekki hræðsla við að svara honum, heldur meira virðing fyrir hans persónu og visku ásamt þeirri stöðu sem húsbóndinn hafði á heimilinu á þessum tíma. Hann valdi vel sín orð og setti þau fram með festu og ákveðni.


Þegar ég lýsti afa mínum, upplifði ég góða tilfinningu. Tilfinningu um aðdáun, fyrirmynd og í raun aðila sem ég mundi vilja líkjast. Ég spyr líka sjálfan mig stundum „hvernig leið honum afa og hvernig var hans líf?“ Staðan hefur örugglega oft verið erfið og sjálfsagt hefur hann hugsað sitt um hlutina á sínum tíma. Hans líf var mjög erfitt og alls ekki sjálfsagt að hafa vinnu og geta framfleitt sínu fólki.


Það hefur líklega verið þröngt í búinu, tvær dætur með börn á heimilinu og síðan amma og afi í þessu litla þrönga sveitabýli við ánna. Oft var kannski lítið að borða og fólk gat verið svangt. Samt var ekki eins og neitt skorti. Litla sveitabýlið var þröngt og dyrnar lágar úr einföldum spýtum með krækju til að loka. Þó þessi vistarvera væri þröng, lítil og með litlum gluggum, þá fannst manni hún samt vera alveg nóg. Hinu megin við veggin var fjósið með einni belju og stundum tveimur og fjárhúsin með nokkrum kindum og hlaða þar fyrir aftan. Ekki má síðan gleyma hæsnakofanum sem var út frá fjósinu. Lífsbaráttan var oft ströng og búskapurinn var ekki mikill eða stór, en hann bjargað málunum oft fyrir horn varðandi það að hafa eitthvað að borða. Ég upplifði aldrei vöntun og man aldrei sérstaklega eftir að hafa verið svangur.


Afi fór oftast á milli staða á gömlu grænu skellinöðrunni og hún var einhvernvegin eins og hluti af honum sjálfum. Ennþá man ég eftir hljóðinu í skellinöðrunni að koma og fara. Þetta hljóð var einhvern samþættað perónunni hans afa. Hann starfaði við fjölbreytt verkamannastörf eins og var á þessum tíma, moka skurði, bera vörur, flytja hluti á milli staða, í uppskipun og oftast var þessi vinna framkvæmd með berum höndum. Ég get ímyndað mér að afi hafi stundum verið mjög þreyttur eftir vinnudaginn, en alltaf hafði hann tíma til að spjalla og leika sér við mann. Hann starfaði um tíma við að ganga með síma- og rafmagnslínum í brjáluðu veðri og leita uppi bilanir. Þetta hefur örugglega tekið mikið á og klæðnaðurinn á þessum tíma var líklega oft ekki góður.


Hvernig ætli afi hafi upplifað sitt erfiða lífsskeið? Hverjar voru hans áhyggjur og hvernig tókst hann á við þessa ábyrgð að fæða og klæða fjölskylduna. Á þessum tíma var aldrei talað um kulnum eða kvíða, þessi orð voru líklega ekki til í orðabókinn. Ég hef á tilfinningunni að hlítt handaband eða faðmlag hjá honum og ömmu hafi kannski verið eina áfallahjálpin sem hann fékk eftir að hafa átt við mjög erfiðar aðstæður.


Amma var einhver hlýlegasti persónuleiki sem ég hef upplifað á æfinni. Ef hún sagði eithvað, var það sagt með blíðum og notalegum rómi, alltaf eithvað hlýlegt og hvetjandi. Andlitið á henni var dálítið steinrunnið eins og hjá afa, en með innmeitluðu brosi og hlýju. Ef maður átti eithvað erfitt var nóg að horfa til ömmu og tengja sig við dýptina í fallegu augunum hennar og milda brosið. Þá var ekki hægt annað en að líða vel og áhyggjur og vanlíðan hvarf eins og dögg fyrir sólu. Hún var afskalega grönn, en með þennan trausta og festulega vöxt kvenna á þessum tíma. Hnarreyst, en samt með slakar axlir sem gerði hana tígulega, en um leið þreytulega.


Ég er nokkuð viss um að þessi hlýja hennar ömmu hefur oft gefið afa orkuna sem þurfti til að komast yfir erfiða hluti. Maður sá stundum hvernig hans alvarlega andlit breyttist þegar hann leit í augun á ömmu. Munnvikin hjá honum lyftu sér aðeins og það glittaði næstum því í bros á hans meitlaða andliti. Stundum sá maður líka hvernig hann reysti sig upp í stólnum og stækkaði allur þegar amma leit á hann brosandi. Hann dýrkaði litlu afastrákana sína og maður sá stundum þetta sama bros þegar hann tók í lítinn fót sem stóð út úr barnakörfunni við hliðina á eldhúsborðinu.


Það var ekki mikið verið að ræða málin hjá ömmu og afa. Lífsbaráttan var endalaust í gangi og þetta var einhver vegin bara leiðin til að lifa lífinu. Þau virtust vera algjörlega samstíga án þess að þurfa að ræða saman um hlutina. Þarna voru einhver tengsl sem orð geta ekki líst. Tvær samtengdar lífverur sem sem vissu alltaf hvað þurfti að gera eða hvert þurfti að fara.


Stundum sat afi í stólnum við gamla eldhúsborðið i horninu og allt í einu kom þungur andardráttur hjá honum sem jafnvel hljómaði stundum eins og djúp stuna. Þá leit amma alvarlega upp og horfi til afa með áhyggjusvip. Síðan breyttist áhyggjusvipurinn hennar í pínulítið bros sem stóð yfir í smátíma. Þarna upplifði maður svo sterka strauma að engin orð geta lýst. Það var svo mikil ást og umhyggja í þessu að maður man þetta alla æfi. Engin orð, bara samtengt augnaráð sem gerði tvær manneskjur að einni. Stundum er nefnilega ekki hægt að lýsa ást með orðum, hún getur verið svo miklu meira.

35 views0 comments
bottom of page